Menntar Börn til Minningar um Dóttur sína

„Tilgangur með sjóðnum er að mennta börn í Eþíópíu. Markmiðið er að halda honum gangandi og styrkja börn til uppeldis og menntunar og mögulega einnig til háskólanáms,“ segir Rúna Hagalínsdóttir sem hefur stofnað styrktarsjóðinn Kraftur Kötlu í þeim tilgangi. Sjóðurinn er stofnaður í nafni og til minningar um Kötlu Rún dóttur Rúnu sem lést ung að aldri árið 2007.

Í dag 21. apríl opnar vefsíðan www.krafturkotlu.is þar sen hægt er að leggja málefninu lið en þennan dag árið 2007 fæddist Katla Rún. Þess má geta að auglýsingastofan Aldeilis gaf alla vinnuna sína í hönnun og uppsetningu vefsíðunnar. „Við erum ótrúlega þakklát fyrir þeirra vinnu,“ segir Rúna. Hún hefur þegar fengið mikil viðbrögð hjá Íslendingum sem vilja styrkja starfið og hafa spurt mikið um hvenær vefsíðan fer í loftið. Taka skal fram að það er ekki bara Rúna sem stendur á bak við verkefnið heldur einnig systir hennar Arna Hagalínsdóttir og móðir þeirra Kirstjana Arnardóttir.

„Katla gaf okkur öllum magnaðan kraft; kraft til að standa saman, kraft til að miðla og hjálpa sem og æðri skilning á því að ekki fá allir sömu tækifærin til betra lífs,“ segir Rúna. Eftir að hafa tekið þau þungu skref að kveðja lítið barn til eilífðarnóns þá kom að þeim tímapunkti að hjónin og börnin þeirra fimm ákváðu að halda útí heim og kanna nýjar slóðir. Fyrir valinu varð Eþíópía í Afríku vegna tengsla við starf Jóns þar hjá fyrirtækinu Reykjavik Geothermal. Þetta var árið 2014.

Í þessari dvöl sem varði í tvö ár breyttist líf fjölskyldunnar þegar ung sárafátæk kona bankaði upp á heimili þeirra. Hún óskaði eftir vinnu en þau greindu henni frá að enga vinnu hjá þeim væri að hafa og var henni því vísað á brott. Hún lét sér ekki segjast og fann sér skjól undir stóru tréi fyrir utan hús fjölskyldunnar og stóð þar í tvo daga. „Það var erfitt að veita henni ekki athygli og að lokum sóttum við hana og buðum henni starf við vikuleg þrif,“ segir Rúna. Hún sagðist ætla að mæta alla daga til að sinna vinnunni sinni sem og hún gerði.

„Hún kunni sjálf ekkert að þrífa því hún bjó í moldarkofa og hafði gert alla ævi,“ segir Rúna. Hún lagði sig fram um að læra og var samviskusöm. Eftir nokkurn tíma fór hún að lauma með sér matarafgöngum til að hafa með sér heim í lok dags og í ljós kom að þeir voru ætlaðir eiginmanni hennar og ungum syni sem var fjögurra ára gamall.

Úr varð að sonurinn Eybo kom með henni í vinnuna enda nóg af börnum á heimilinu fyrir hann að leika við. Þannig kynntist fjölskyldan Eyob litla. Til að gera langa sögu stutta varð þessi litla fallega fjölskylda ómissandi hluti af heimilislífinu. Þegar kom að því að fjölskyldan fluttist til Addis Ababa, höfuðborgar Eþíópiu, flutti Eyob með þeim ásamt foreldrum sínum. Þar hófu börnin skólagöngu og ekki kom annað til greina en að færa Eyob sömu tækifæri til menntunar og sá íslenska fjölskyldan til þess.

Þau studdu einnig foreldra Eyob, aðstoðuðu þau við að fá vinnu og húsnæði. „Það er ekki síður mikilvægt að styðja foreldrana líka en ekki bara börnin. Það er ekki nóg að finna eitthvað barn og ætla að setja það í skóla,“ útskýrir Rúna.

„Á þeirri stundu kviknaði hugmyndin og stofnaður var sjóður svo tryggja mætti skólagöngu Eyob,“ segir Rúna. Í fimm ár hefur Eyob sótt góðan skóla og fær þá menntum sem hann á skilið, ritföng og fatnað. Íslenska fjölskyldan hyggst halda áfram að styrkja hann til náms og háskólanáms ef hann kýs að feta menntabrautina.

Fjölskyldan flutti aftur heim til Íslands árið 2016. Eftir það hefur Rúna reynt að fara reglulega til Eþíópíu til að hitta Eyob og foreldra hans. Í einni slíkri ferð í nóvember 2019 kynntist Rúna þremur börnum til viðbótar og fjölskyldum þeirra sem hún vill að verði styrkt til áframhaldandi náms. „Við viljum nýta kraftinn og veita þeim börnum sömu tækifæri og Eyob hefur fengið,“ segir Rúna. Hún bendir á að íbúar hins vestræna samfélags eiga oft á tíðum auðvelt með að rétta fram örlitla hjálparhönd, en þessi sama hjálparhönd getur skipt sköpum í lífi barns í Eþíópíu.

Kraftur Kötlu þiggur frjáls framlög og hvers sá sem vill gerast styrktaraðili fær reglulega upplýsingar um börnin, námsárangur þeirra og fjölskyldur

Stöndum saman

Styrkjum börn til menntunar í þróunarlöndum. 

Kraftur Kötlu | 570120-1070 | Leirvogstungu 41, 270 Mosfellsbær | 866-4455 | kraftur@krafturkotlu.is
Scroll to Top