Kraftur Kötlu – Sagan

Kraftur Kötlu er styrktarsjóður til uppeldis og menntunar barna í þróunarlöndum. Hugmyndin að sjóðnum kviknaði fyrir nokkrum árum þegar upp kom ríkuleg þörf til að láta gott af sér leiða og hefja styrktarstarfsemi í nafni og til minningar um litlu Kötlu Rún, sem lést ung að aldri. Katla gaf okkur öllum magnaðan kraft; kraft til að standa saman, kraft til að miðla og hjálpa en líka æðri skilning á því að ekki fá allir sömu tækifærin til betra lífs. Eftir að hafa kynnst börnum og fjölskyldum þeirra í Eþíópíu þá kom upp mikil löngun til að hjálpa þeim sem minna mega sín og þurfa virkilega á hjálparhönd að halda. Íbúar hins vestræna samfélags eiga oft á tíðum auðvelt með að rétta fram örlitla hjálparhönd, en þessi sama hjálparhönd getur skipt sköpum í lífi barns í Eþíópíu.

Þessi áræðna fallega stúlka

Eftir að hafa tekið þau þungu skref að kveðja lítið barn til eilífðarnóns þá kom að þeim tímapunkti að það var ákveðið að halda útí heim og kanna nýjar slóðir. Staðarvalið var hin stórfenglega Eþíópía. Vestræn barnrík fjölskylda vakti án efa mikla athygli á slóðum fjölmennis, fátæktar og þróunar og margir voru viljugir til að rétta fram hjálparhönd í þeirri von um að fá fasta atvinnu. Fljótlega eftir komuna á nýjar heimaslóðir bankaði sárafátæk ung stúlka uppá hjá fjölskyldunni og spurði hvort einhverja vinnu væri að hafa. Svo var ekki og var henni vísað á bug. Þessi áræðna fallega stúlka hélt í vonina, lét sér ekki segjast og fann sér skjól undir stóru tréi fyrir utan hús fjölskyldunnar. Þar stóð hún í tvo daga. Það var erfitt að veita stúlkunni ekki athygli og að lokum var hún sótt og henni boðið starf við vikuleg þrif.

Þannig kynntumst við Eyob litla

Starfið var svo hljóðandi að hún átti að mæta til þrifa einu sinni í viku en hún mælti svo strax að hún myndi mæta daglega til að sinna starfi sínu, sem og hún gerði. Það kom í ljós að stúlkan kunni ekkert til þrifa, enda alin upp og bjó sjálf í moldarkofa, en hún lagði sig alla fram um að læra tökin og mætti daglega til starfa eins og hún lofaði. Fljótt varð hún yndislegur hluti af fjölskyldunni og allir nutu þess að bæði kenna henni nýja siði og læra hennar siði. Eftir sem á leið bar á því að stúlkan laumaði með sér matarafgöngum til að hafa með sér heim í lok dags. Matarafgangarnir voru ekki syrgðir en óneitanlega vöknuðu upp spurningar um hverjum afgangarnir voru ætlaðir. Kom þá í ljós að unga stúlkan tók sér mat til að fara með heim til eiginmanns síns og ungs sonar, sem þá var aðeins fjögurra ára gamall. Við þessa vitneskju hjálpuðust allir við að færa henni mat til heimferðarinnar en hún var að sama skapi hvött til að taka drenginn sinn með sér vinnuna, enda nóg af börnum á heimilinu til að leika við. Þannig kynntumst við Eyob litla.

Hluti af fjölskyldunni

Til að gera langa sögu stutta þá varð þessi litla fallega fjölskylda ómissandi hluti af heimilislífinu og þegar það kom að því að fjölskyldan varð að flytjast búferlum til Addis Ababa, höfuðborgar Eþíópiu, þá fluttust þau öll með okkur. Við komuna til Addis Ababa hófu börnin skólagöngu þar og við það kom ekki annað til greina en að færa Eyob litla sömu tækifæri til menntunar. Á þeirri stundu kviknaði krafturinn og stofnaður var sjóður svo tryggja mætti skólagöngu Eyob. Í fimm ár hefur Eyob nú sótt góðan skóla og fær þá menntum sem hann á skilið, ritföng og fatnað. Nú er svo komið að fleiri eþíópísk börn eru orðin hluti af okkar lífi og við viljum nýta kraftinn og veita þeim börnum sömu tækifæri og Eyob hefur fengið.

Kraftur Kötlu styrkir börn til skólagöngu

Kraftur Kötlu styrkir börn til skólagöngu, allt frá grunnskóla og i gegnum háskóla. Börnin búa allra jafna hjá foreldrum sínum sem hafa að sama skapi ekki næg fjárræði til að bjóða þeim góða menntun. Markmiðið er að veita þessum börnum aðgang að skólum í sínu landi til að þau menntist og eflist sem einstaklingar innan sinnar þjóðar. Nú þegar bíða börn spennt eftir því að fá að hefja sína skólagöngu í góðum skólum. Kraftur Kötlu þiggur frjáls framlög og hver sá sem vill gerast styrktaraðili fær reglulega upplýsingar um börnin, námsárangur þeirra og fjölskyldur.

Markmið

Kraftur Kötlu er sjálfstætt rekinn styrktarsjóður með starfsemi utan landamæra. Sjóðurinn mun kappkosta við að styrkja börn í þróunarlöndum til uppeldis, menntunar og betra lífs. Markmiðið er að veita þessum börnum aðgang að góðum skólum í sínu landi til að þau menntist og eflist sem einstaklingar innan sinnar þjóðar

Sýn

Öll börn, óháð þjóðerni, kyni eða þjóðfélagslegri stöðu, ættu að hafa sömu tækifæri til menntunar og betra lífs.

Stefna

Stefna sjóðsins er að styrkja börn í þróunarlöndum til skólagöngu. Markmiðið er að veita börnum aðgang að góðum skólum í sínu landi til að þau megi menntast og eflast sem einstaklingar innan sinnar þjóðar, allt frá grunnskólagöngu fram yfir háskólanám.

Gildi

Kraftur Kötlu starfar að dýpri og kröfturgri framsetningu lífs barna og eru gildi sjóðsins þrek, breytingar, von og líf.
  • Þrek, til betra lífs
  • Breytingar, í formi menntunar og þekkingar
  • Von, um bjarta framtíð
  • Líf, fyrir nýtt upphaf

Hvert fara framlögin

Framlögin fara til skólagjölda handa hverju barni. Innifalið í skólagjöldum eru eftirfarandi atriði:

  • Ritföng og bækur
  • Skólabúningar
  • Rúta til og frá skóla
  • Aðstoð við nám utan skóla, sé þörf á því

Upllýsingar um sjóðinn

Nafn: Kraftur Kötlu
Kennitala: 570120-1070
Lögheimili: Leirvogstungu 41, 270 Mosfellsbær
Rekstrarform: Almannaheillafélag með starfsemi yfir landamæri
Forráðamaður: Rúna Birna Hagalínsdóttir – stjórnarformaður
Sími: 866-4455
Netfang: kraftur@krafturkotlu.is

Banka upplýsingar
570120-1070
0133-26-201328

Scroll to Top